Endurskoða lög um Stjórnaráð Íslands

Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg.
Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg. Jim Smart

Forsætisráðherra hefur skipað nefnd sem fær það verkefni að endurskoða lög um Stjórnarráð Íslands í heild sinni og gera tillögur um lagabreytingar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Þar kemur fram að meðal þeirra atriða sem þarfnist sérstakrar skoðunar séu ákvæði um:

  1. Starfshætti ríkisstjórnar og fyrirkomulag ríkisstjórnarfunda og annarra ráðherrafunda, m.a. hvaða mál skuli leggja fyrir ríkisstjórnarfundi og í hvaða formi það skuli gert.
  2. Innra skipulag ráðuneyta innan Stjórnarráðsins og starfsheiti starfsmanna.
  3. Pólitíska aðstoðarmenn ráðherra, m.a. um stöðu pólitískra aðstoðarmanna innan ráðuneytis, ráðningu þeirra, starfslok og fjölda þeirra.
  4. Auglýsingaskyldu starfa hjá hinu opinbera og frávik frá þeirri skyldu m.a. vegna tímabundinna aðstæðna.
  5. Heimildir til tilflutnings embættismanna og annarra starfsmanna innan Stjórnarráðsins, m.a. um málsmeðferð og formkröfur laganna og mögulega flutningsskyldu.

Bent er á að núgildandi lög um Stjórnarráð Íslands séu að stofni til frá árinu 1969. Þó þau hafi tekið nokkrum breytingum frá þeim tíma sé það mat forsætisráðuneytisins, með hliðsjón af fenginni reynslu af framkvæmd laganna, að rétt sé og tímabært að ráðast í heildarendurskoðun þeirra.

Óhjákvæmilegt sé að endurskoðunin muni jafnframt varða ákvæði í öðrum lögum s.s. lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Gert sé ráð fyrir því að við endurskoðunina verði m.a. litið til lagareglna sem um þetta gilda á Norðurlöndunum og víðar eftir atvikum.

Anna Kristín Ólafsdóttir stjórnsýslufræðingur er formaður nefndarinnar, en aðrir í nefndinni eru Hafdís Ólafsdóttir skrifstofustjóri, tilnefnd af fjármálaráðherra, Gunnar Helgi Kristinsson prófessor, Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert