Nýju mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á erlendri skuldastöðu Íslands er ekki lokið, en miðað við nýjustu upplýsingar eru skuldir ríkissjóðs örlítið lægri en þegar fyrsta endurskoðunin á efnahagsáætlun Íslands fór fram. Það skýrist af kaupum skilanefnda Glitnis og Kaupþings á Íslandsbanka og Arion banka. Það þýðir að ríkið þarf ekki lengur að dæla fé inn í nýju bankana.
Í tilkynningu sem sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur sent frá sér kemur fram að vegna frétta sem birst hafi í fjölmiðlum í morgun þá telji sendinefndin að hún verði að birta nokkrar staðreyndir um skuldastöðu íslenska þjóðarbúsins.
Mati á skuldastöðu Íslendinga sé ekki lokið og enn sé verið að fara yfir stöðuna í samstarfi við íslensk stjórnvöld. Fram hafi komið nýjar upplýsingar sem í sumum tilvikum hækki skuldir en í öðrum tilvikum lækki þær. Vinnu við matið sé ekki lokið.
Segir í tilkynningunni að ekkert hafi enn komið fram sem bendi til þess að Ísland geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Að lokum biður sendinefndin fjölmiðla að hafa það í huga að hægt sé að hafa samband við sendinefndina ef eitthvað sé óljóst varðandi staðreyndir. Það geti komið í veg fyrir misskilning.