Þingfundi var slitið á Alþingi laust fyrir klukkan 2 í nótt og hafði þá verið rætt um frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldindinganna frá því um morguninn. Þingfundur hefst að nýju klukkan 10:30 í dag og er Icesave-málið þá enn á dagskrá.
Átta þingmenn voru á mælendaskrá þegar umræðunni var frestað í nótt, allt þingmenn stjórnarandstöðunnar sem allir hafa talað nokkrum sinnum í umræðunni.
Það kemur ekki á óvart að þeir þingmenn sem hafa mest lagt til málanna í umræðunni um Icesave-frumvarpið skuli tróna efstir á lista yfir þá þingmenn, sem mest hafa talað á yfirstandandi þingi.
Þar fer fremstur í flokki Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Hann hafði í gær komið 229 sinnum í ræðustólinn, flutt ræður og athugasemdir og talað í samtsls 537 mínútur. Næstur honum kemur margfaldur ræðukóngur Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Hann hefur komið 166 sinnum í ræðustólinn og talað í 506 mínútur samtals. Aðrir sem talað hafa lengur en 400 mínútur eru Birgir Ármannson D (482), Þór Saari H (435), Ásbjörn Óttarsson D (429) og Unnur Brá Konráðsdóttir D (410).