„Það er nú ekki nýtt að Þór Saari sé að lýsa þessu yfir. Hann virðist vera í alveg sérstökum leiðangri að reyna að sannfæra þjóðina um það að hún ráði ekki við skuldir sínar og í hinu orðinu reynir hann að hræða fólk úr landi,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um ummæli Þórs.
Ummælin sem að Steingrímur vísar til voru höfð eftir þingmanninum á fréttavef Morgunblaðsins í gærkvöldi en þar fullyrti sá síðarnefndi að Ísland stefndi í greiðsluþrot. Landflótti blasi við.
„Þetta er ekki málflutningur sem að hjálpar okkur eitt eða neitt og hvort tveggja er rangt. Það er sem betur fer ekki brostinn hér á neinn fólksflótti umfram það sem eðlilegt má telja við þessar aðstæður og þó að þessar brúttóskuldir séu miklar sýnir sundurliðun þeirra að staðan er ekkert verri en við áttum von á.
Nettóstaða þjóðarbúsins er á svipuðum slóðum og að reiknað hafði verið með. Það er mjög alvarlegur hlutur að vera að reyna að blása út hræðsluáróður um þetta. Að sjálfsögðu höfum við alltaf vitað að það væri ekki komið endanlegt uppgjör á þetta. Það er enn þá inn í kerfinu dálítið af skuldum sem að á eftir að sjá hvernig hreinsast út. Mjög stór hluti þessara heildarskulda.“
Ísland stefnir ekki í greiðsluþrot
- Þannig að Ísland stefnir ekki í greiðsluþrot?
„Nei. Það er alveg fráleitt að vera með slíka heimsendaspádóma og ég er nú búinn að vera á fundi með sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins [í gær] og þar bar ekkert slíkt á góma. [...] Það er til dæmis alveg ljóst að ríkið er að koma betur út úr þessu þegar upp er staðið en við höfðum óttast.“
- Þannig að talan, 310% skuldir þjóðarbúsins, hefur ekki hækkað?
„Hún er sú tala sem að er notuð í bili. Síðan verður það bara að koma í ljós hvernig hlutirnir skýrast á næstunni. Það hefur enginn haldið því fram að hún væri endanleg. Það liggur fyrir að hún var svona mat á þessu á ákveðnum tímapunkti,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.