Akureyrarflugvöllur var vígður með hátíðlegum hætti fyrir 55 árum, þann 5. desember 1954. Snæfaxi, Douglas-flugvél Flugfélags Íslands, lenti þann dag fyrst flugvéla á flugvellinum í Eyjafjarðarhólmum. Fáum mínútum síðar lenti þar Gunnfaxi, flugvél sömu gerðar.
Þar með var draumur Eyfirðinga og annarra flugáhugamanna um góðan flugvöll norðan heiða orðinn að veruleika, að því er fram kemur í frétt frá Flugstoðum.
„Í ræðu sem Ingólfur Jónsson, þáverandi flugmálaráðherra, hélt í tilefni dagsins gat hann þess að “völlurinn væri búinn öllum nýtízku öryggistækjum og þar á meðal ratsjártækjum og væri fyrsti íslenzki flugvöllurinn sem þau tæki hefði til afnota.”
Uppbygging Akureyrarflugvallar hófst árið1952 þegar Akureyrarkaupstaður afsalaði sér landi undir flugvöllinn til Flugráðs fyrir hönd ríkissjóðs. Næstu tvö ár var unnið að gerð flugbrautarinnar sem var upphaflega 1000 metrar. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og síðasta sumar kláruðust framkvæmdir við flugvöllinn þar sem flugbrautin var lengd um 460 metra til suðurs og er nú 2400 metrar að lengd. Heildarlengd flugbrautar með öryggissvæðum er þar með orðin 2700 metrar.“
Hefur starfað í 46 ár á Akureyrarflugvelli
„Ellefu árum eftir að flugvöllurinn var tekin í notkun eða í júní árið 1963 hóf Þórhallur Sigtryggsson störf sem radíóvirki á Akureyrarflugvelli, Þórhallur er ennþá, 46 árum síðar, starfandi á flugvellinum. Þegar Þórhallur er spurður hvernig það kom til að hann hóf störf á flugvellinum kemur í ljós að upphaflega hafi hann verið ráðinn til eins árs.
„Það var Arngrímur Jóhannesson, sem þá var starfsmaður Flugmálastjórnar Íslands á flugvellinum, sem fékk mig til að leysa sig af í eitt ár þar sem hann ætlaði í nám.” Þórhallur sem hafði þá nýlokið námi í útvarpsvirkjun tók sig til flutti til Akureyrar í framhaldi af því og hefur búið þar æ síðan.
Þórhallur sagði ennfremur að starfið hefði breyst í gegnum tíðina „nú orðið sé sama hvaða raftæki væri um að ræða, upptökutæki, móttakara, eða radar, allt innihéldi tölvubúnað”. Þróunin í fræðunum hafi þó verið samfelld og hann hafi fylgst vel með henni.
Þegar hann er spurður um hvaða breytingar hefðu haft mest áhrif á flugvellinum sjálfum sagði hann að það hefði án efa verið þegar blindaðflugið gat orðið komið beint úr suðri en það hefði verið afgerandi breyting fyrir flugvöllinn.“