Dóttir Bobby Fischers stödd á Íslandi

Bobby Fischer.
Bobby Fischer. mbl.is/RAX

Jinky Young, sem kveðst vera dóttir Bobby Fischers, er stödd á landinu. Fram kemur á vef Manila Bulletin á Filippseyjum að Young hafi heimsótt gröf Fischers í Laugardælakirkjugarði rétt við Selfoss sl. þriðjudag.

Jinky er sögð hafa fengið frí frá skóla til að heimsækja gröfina ásamt móður sinni, Marilyn Young. Þær hittu Fishcer síðast í september 2005 í Reykjavík að sögn Manila Bulletin. Þá hafi Fishcer verið með þeim í þrjár vikur.

Mæðgurnar eru staddar hér á landi vegna málaferla, sem hér standa yfir um skiptingu dánarbús Fischers.

Með mæðgunum er í för Eugene Torre, stórmeistari í skák, sem var vinur Fischers, og lögmaðurinn Sammy Estimo. Torre var á sínum tíma í hópi sterkustu skákmanna heims.

Fram hefur komið á fréttavefnum gmanews, að Estino krefjist þess að 2/3 arfsins eftir Fischer skuli renna til dótturinnar og vísi þar til íslenskra laga. 

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu systursona Fischers um að að dánarbú hans verði tekið til opinberra skipta. Í því felst að dómstóllinn hefur viðurkennt erfðarétt Myoko Watai, sem segist vera eiginkona skákmeistarans. Þessum úrskurði hefur verið vísað til Hæstaréttar. 

Gmanews segir, að hópurinn frá Filippseyjum muni fara frá Íslandi til Lundúna þar sem verið sé að gera kvikmynd um ævi Fischers.
 
Jinky fæddist þegar Fischer bjó í Baguio á Filippseyjum. Torre kynnti hann fyrir Marilyn þar.  Jinky  er nú 9 ára. Fram hefur komið, að eftir að Fischer kom hingað til lands í mars 2005 hafi hann með aðstoð annarra unnið að því að fá stúlkuna í heimsókn. Stúlkan hafi komið til Íslands um haustið og dvalist hér í nokkrar vikur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert