Stjórn Ungra vinstri grænna (UVG) fagnar þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja Varnarmálastofnun niður. „Stofnun Varnarmálastofnunar var ein af þeim slæmu mistökum sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar kom í verk,“ segir m.a. í ályktun stjórnar UVG.
Þá segir stjórn UVG að Varnarmálastofnun hafi aldrei verið þannig úr garði gerð „að hún tryggði raunverulega öryggi Íslendinga, heldur endurspeglaði hún úrelt kaldastríðsviðhorf sem miðuðu að því að auka hernaðarleg umsvif Íslands.
Stjórn Ungra vinstri grænna hefur ítrekað bent á að þátttaka herlauss Íslands í hvers kyns stríðsbrölti sé út í hött og síst til þess fallin að tryggja öryggi borgaranna. Fyrir það fyrsta eru þær ógnir sem stafa að Íslandi ekki hernaðarlegs eðlis. Hafi Sjálfstæðisflokkinum raunverulega verið annt um öryggi íslenskra borgara hefði fjárveitingu Varnarmálastofnunar betur verið varið í að efla almenna löggæslu, björgunarsveitir, heilsugæslu og forvarnir. Í annan stað, þá er stríðsrekstur nokkuð sem Íslendingar ættu frekar að berjast gegn en að taka þátt í. Fyrir utan þær hörmungar og eyðileggingu sem stríð valda eru þau afskaplega dýr. Á meðan tugir þúsunda deyja úr hungri og auðlæknanlegum sjúkdómum á hverjum degi eyða þjóðir heimsins gífurlegum fjárhæðum í hernað. Þessu brenglaða gildismati verður að útrýma.
Það er krafa stjórnar Ungra vinstri grænna að ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar láti kné fylgja kviði. Ísland á að segja sig úr hernaðarbandalaginu NATO og hætta að bjóða hingað herliði til æfinga,“ segir í ályktuninni.