Falsaðar sögur af látnum ekki líðandi

Sumarmynd úr Hólavallagarði við Suðurgötu - myndin tengist fréttinni ekki …
Sumarmynd úr Hólavallagarði við Suðurgötu - myndin tengist fréttinni ekki að öðru leyti mbl.is/Valdís Þórðardóttir

„Við munum leita allra ráða til að stöðva þetta,“ segir Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, um starfsemi Draugaferða, sem skipuleggja göngur um kirkjugarðinn við Suðurgötu og segja ferðamönnum ósannar hryllingssögur af raunverulegu fólki.

Stjórn garðanna mun funda með lögmanni til að sjá til hvaða ráða megi taka. „Það sjá allir sanngjarnir menn að svona málatilbúnaður, eins og hafður er í frammi þarna, er ekki líðandi að haldi áfram,“ segir Þórsteinn. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær sagði Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, frá því að ein sagan snerist um hálfsystur hans, sem lést sex ára vegna sprungins botnlanga. Voru henni þar gerð upp hörmuleg örlög og hún sögð afturganga. Jafnframt var beðið fyrir henni í draugaferðunum.

Ragnheiður Björnsdóttir, formaður Félags leiðsögumanna, segir að framferði þeirra sem sjá um draugaferðirnar sé greinilega ekki í neinu samræmi við siðareglur félagsins og að Jónas Freydal hjá Draugaferðum sé ekki meðlimur í Félagi leiðsögumanna. Hún viti ekki til þess að hann sé lærður leiðsögumaður.

„Við höfum barist fyrir því að einungis fólk sem hefur fengið tilhlýðilega menntun sinni leiðsögn,“ segir Ragnheiður. „Margir hafa enga þekkingu á því sem þeir eru að fjalla um. Þetta er langt frá því sem lærðir leiðsögumenn myndu gera. Við búum ekki til sögur um raunverulegt fólk.“

Ásdís Ásgeirsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka