Frumvarp um fleiri dómara

mbl.is/ÞÖK

Dómsmálaráðherra hefur lagt fram lagafrumvarp á Alþingi um að heimilt verði að fjölga dómurum við héraðsdómstóla landsins tímabundið úr 38 í 43. Er þetta í samræmi við tillögu dómstólaráðs og er ætlað að mæta mikilli fjölgun dómsmála vegna fjármálahrunsins.

Samkvæmt frumvarpinu verður skipað í ný embætti dómara en frá ársbyrjun 2013 verður ekki skipað að nýju í embætti sem losna eftir þann tíma þar til starfandi dómarar verða aftur orðnir 38. 

Í greinargerð með frumvarpinu er m.a. vísað til þess mats embættis sérstaks saksóknara, að á árinu 2010 verði álag á dómstólana í formi 5–10 umfangsmikilla og tímafrekra mála fyrir dómi auk fjölda rannsóknarúrskurða, svo sem vegna húsleita, ágreinings um rannsóknaraðgerðir lögreglu og gæsluvarðhaldsúrskurða. Fari sem horfir muni stór og umfangsmikil mál á árinu 2011 verða 15–25 auk rannsóknarúrskurða. Á árinu 2012 fari slíkum málum hins vegar að fækka og fækki enn frekar á árinu 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert