Hefð hefur skapast fyrir því að jólasveinarnir geri sér eina ferð í Jarðböðin í Mývatnssveit fyrir hver jól. Heimsókn jólasveinanna nýtur vaxandi vinsælda, einkum hjá börnunum. Mikill mannfjöldi var samankominn í Jarðböðunum síðdegis í dag.
Stúfur var eitthvað hræddur við vatnið í dag og fór ekki úr sínum þjóðlega búningi. Hann var með rauða regnhlíf til að verjast vatninu. Stúfur stjórnaði svo fjöldasöng á meðan félagar hans komu sér í prjónabrækurnar áður en þeir skelltu sér út í lónið.
Um 150 manns voru með jólasveinunum í lóninu, aðallega börn og unglingar. Nánast jafn margir fylgdust með uppákomunni úr hæfilegri fjarlægð. Annars eru þeir félagar nú alla daga að skemmta sér og öðrum í Dimmuborgum og hafa nú þegar á annað þúsund komið þar og heilsað upp á þá kumpána.