Ljósin voru tendruð á Hamborgartrénu á Miðbakka nú síðdegis. Barnakór Kársnesskóla söng jólalög og á eftir var gestum boðið að þiggja heitt súkkulaði og bakkelsi í Hafnarhúsinu í boði Faxaflóahafna.
Þetta var í 44. skiptið sem velunnarar Íslendinga í Hamborg senda jólatré til Reykjavíkurhafnar. Eimskipafélag Íslands hefur alltaf flutt tréð endurgjaldslaust.
Sagan í kringum jólatréð frá Hamborg er bæði falleg og táknræn fyrir boðskap jólanna.Tréð er þakklætisvottur til íslenskra togarasjómanna sem gáfu svöngu fólki í Hamborg mat þegar togarar sigldu með fisk til Þýskalands fyrst eftir seinna stríðið.