Samkomulag hefur náðst á milli formanna stjórnmálaflokkanna á Alþingi um afgreiðslu Icesave-málsins úr 2. umræðu. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins staðfesti Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, samkomulagið með undirritun sinni. Eftir mun vera að ræða samkomulagið í þingflokkunum. Í framhaldi af samkomulaginu var umræðu um Icesave frestað kl. 21.40 í gærkvöldi og önnur mál tekin á dagskrá.
Í samkomulaginu mun m.a. felast að 2. umræðu ljúki á þriðjudag og að frumvarpið fari þá til fjárlaganefndar. Einnig að fjárlaganefnd fari lið fyrir lið í gegnum þau 16 atriði sem stjórnarandstaðan kynnti í yfirlýsingu í gær. Fjárlaganefnd á að fá þann tíma sem hún þarf til þess. Einnig mun eiga að fá enska lögfræðistofu til að fara yfir samningana.
Í yfirlýsingunni sagði að stjórnarandstaðan myndi krefjast þess að frumvarpinu yrði vísað frá Alþingi og til ríkisstjórnarinnar til frekari meðferðar. Þá krafðist stjórnarandstaðan þess að vandlega verði farið yfir þau álitamál sem enn er ósvarað.
Óljóst er talið hvaða áhrif það hefur á skuldbindingar íslenska ríkisins verði ráðist í endurskoðun á innlánstryggingakerfi ESB, sem mun vera hafin. Einnig þurfi að skoða hvaða afleiðingar það muni hafa verði frumvarpið ekki samþykkt eða verði dráttur á lyktum deilunnar Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun stjórnarandstaðan hafa fallist á þessa leið þegar stjórnarflokkarnir hótuðu því að taka Icesave-málið úr 2. umræðu með atkvæðagreiðslu. Slík afgreiðsla á sér örfá fordæmi í lýðveldissögunni.