Skattafrumvörp til nefndar

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ómar

Fyrstu umræðu um skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar lauk á Alþingi á fimmta tímanum og voru frumvörpin, sem eru þrjú, send til efnahags- og skattanefndar.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að miðað við það hversu umfangsmiklar ráðstafanirnar í skattamálum væru hefði þjóðin tekið þeim af mikilli skynsemi og ekki hefði orðið það fjaðrafok, seim einhverjir héldu að yrði. „Sumir höfðu undirbúið samviskusamlega vikurnar áður en þetta var kynnt að hinn hroðalegasti skattmann allra tíma væri mættur á sviðið," sagði Steingrímur. 

Steingrímur sagðist hafa skoðað allmörg dæmi um þau áhrif, sem fyrirhugaðar skattalagabreytingar muni hafa, og niðurstaðan væri sú að skattbyrðin fari að aukast þegar komið væri upp í millitekjur og vaxi síðan eftir það. Þó yrðu tekjuhá heimili yrðu að hámarki fyrir um 3% þyngingu skattbyrði miðað við heildartekjur og algengt væri að í millitekjuhópum vaxi skattbyrðin um 1-2%.

„Það gladdi mig mjög þegar ég fékk um daginn eitt af fjölmörgum bréfum þar sem ung fjölskylda hafði reiknað út sína skattbyrði út frá þeim tillögum, sem kynntar höfðu verið. Þar er  annar aðilinn, reyndar eiginkonan í þessu tilfelli, að afla meginhluta teknanna og fjölskyldutekjurnar eru á bilinu 700 þúsund til 1 milljón á mánuði. Það kom nákvæmlega út rétt niðurstaða hjá þessari glöggu manneskju, að skattbyrði þess heimilis var að aukast um 2-2,5% af heildartekjum og það fannst viðkomandi sanngjarnt og sagði: Þetta ráðum við vel við.

Mikið væri nú gaman ef sem flestir gætu tekið þessu svona: Að vera tilbúnir að leggja sitt að mörkum enda sé það hóflegt og sanngjarnt miðað við þær aðstæður og það verkefni sem við stöndum frammi fyrir," sagði Steingrímur.

Hann bætti við, að þetta sýndi enn og aftur hversu skynsöm og sterk þjóðin væri og gerði sér grein fyrir, að hún yrði að leggja dálítið á sig meðan að tímabundið væri gengið gegnum erfiðasta tímann, sem yrði 2-3 ár.

Endurskoðun skattkerfis að hefjast

Steingrímur sagði, að til stæði heildstæð endurskoðun á skattkerfinu, sem myndi hefjast í byrjun næsta árs, þar á meðal skoða möguleika á að samþætta í einn breiðan tekjustofn bæði launatekjur og fjármagnstekjur með tilteknum reikniaðferðum, sem færi skattbyrðina með réttlátum hætti á efri hluta tekjubilsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka