Fréttaskýring: Tekist á um tvöfalda refsingu í Baugsmáli

Frá réttarhöldum í Baugsmálinu.
Frá réttarhöldum í Baugsmálinu. mbl.is/Guðmundur Rúnar

Nýasta útspilið í Baugsmálinu – skattahluta þess öllu heldur – er í boði Mannréttindadómstóls Evrópu. Alls óvíst er hvernig dómstólar túlka álitaefnið og líkast til verður það Hæstaréttar að skera úr. Tekist er á um hvort meðferð mála hjá ríkisskattastjóra og ákveðið álag jafngildi dómsmeðferð.

Í febrúar sl. kvað Mannréttindadómstóll Evrópu upp stefnumarkandi dóm. Róbert R. Spanó, starfandi umboðsmaður Alþingis og ritstjóri Tímarits lögfræðinga, fer yfir dóminn og hugsanlegar afleiðingar hans í nýlegri ritstjórnargrein. Róbert bendir á að dómurinn sé stefnumarkandi fyrir þær sakir að hann er sá fyrsti sem yfirdeild dómstólsins kveður upp um 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við Mannréttindasáttamála Evrópu .

Dómstólinn vék frá fordæmum sínum í málinu og leit til niðurstöðu Evrópudómstólsins sem segir að bannið við endurtekinni málsmeðferð eða tvöfaldri refsingu verði að afmarka þannig að skilyrði um sama brot feli aðeins í sér að atvik séu þau sömu í málunum tveimur.

Var Símon forspár?

Máli ákæruvaldsins gegn Jóni Ólafssyni og fleirum fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum var einmitt vísað frá héraðsdómi með vísun í téð ákvæði, og til þess litið að ríkisskattstjóri hefði ákvarðað skattaðilunum álag eftir ákvæðum skattalaga. Taldi dómari málsins, Símon Sigvaldason, að álagið, í ljósi samspils þess við refsiákvæði laganna um frádrátt álags frá refsingu, hefði yfir sér það yfirbragð að vera refsikennd viðurlög í skilningi 4. greinarinnar.

Hugsanlega má segja að Símon hafi reynst forspár því hann kvað upp dóm sinn í desember fyrir ári, tveimur mánuðum áður en dómur Mannréttindadómstóls var kveðinn upp.

 Dómstóla að skera úr um

Ekki er þó auðvelt að túlka dóma Mannréttindadómstóls Evrópu eða áhrif þeirra á íslenskt réttarfar. Verjendur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Tryggva Jónssonar, Kristínar Jóhannesdóttur, Baugs og Gaums munu eflaust láta á það reyna, að meðferðin hjá skattayfirvöldum hafi jafngilt dómsmeðferð og álagið refsingu. Því beri að vísa málinu frá. Sé litið til máls Jóns Ólafssonar er það ekki ólíkleg niðurstaða.

Ákæruvaldið mun að sjálfsögðu mótmæla því að dómur Mannréttindadómstólsins hafi þýðingu í málinu en fari svo að hann hafi áhrif þá hafi hann aðeins áhrif á hluta ákæruliða, þ.e. ákæruliða vegna eigin skattskila Jóns Ásgeirs og Tryggva. Hvað varðar ákærur á hendur öllum vegna starfa þeirra í þágu félaganna Baugs og Gaums er til þess að líta að álag var lagt á félögin en ekki framkvæmdastjóra þeirra.

Að lokum er það dómstóla að skera úr um þessi álitaefni og ljóst að Baugssagan heldur áfram í réttarsölum enn um hríð.

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Tryggvi Jónsson.
Tryggvi Jónsson. mbl.is/G.Rúnar
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert