Endurbyggingu Ziemsen hússins er nú lokið. Það var upphaflega byggt í tveimur áföngum við Hafnarstræti 21 en hefur nú verið endurbyggt við Vesturgötu 2a, í Grófinni. Húsið er nú til sölu og annast Eignamiðlun söluna.
Í greinargerð Þorsteins Bergssonar hjá Minjavernd hf. um endurbyggingu hússins kemur m.a. fram að húsið hafi verið komið í endanlega mynd árið 1899 og sé því 110 ára á þessu ári. Ýmislegt bendir til að syðri hluti hússins sé að stofni til frá 1835, byggður af Bjarna Sivertsen.
Húsið var alltaf verslunarhús. Lengst var Thomsen kaupmaður þar með verslun. Borgarbílastöðin var einnig í húsinu og Járnvöruverslun Ziemsen. Húsið var fyrir þegar til stóð að byggja nýjar höfuðstöðvar Landsbankans í miðborginni. Það var flutt út á Granda til geymslu en var svo flutt á Grófartorg.
Minjavernd hf. hefur borið ábyrgð á endurbyggingu hússins og fjármagnaða hana með liðsinni Virðingar og Íslandsbanka.