Roger Boyes, breskur rithöfundur og blaðamaður, höfundur bókarinnar Meltdown Iceland, sagði í Silfri Egils í dag að bresk stjórnvöld hafi sent hingað til lands mann árið 2005 til þess að kanna fjármálafyrirtæki á Íslandi. Var þetta sérfræðingur í málefnum Rússlands en meðal annars var verið að skoða peningaþvætti Rússa í öðrum ríkjum.
Boyes var tíðrætt um Jón Ásgeir Jóhannesson og Davíð Oddsson í viðtali við Egil Helgason og sagði að þeir væru í raun spegilmynd hvors annars. Jón Ásgeir væri í raun táknmynd þess markaðskerfi sem Davíð hefði komið á en mistekist að hafa stjórn á.
Hann kom inn á kerfið á Íslandi og tengsl manna á milli. Fleiri möguleikar séu á því að fá peninga inn í landið með öðrum leiðum en með uppsetningu álvera á Íslandi. Boyes segir út í hött að nýta þá hreinu orku sem til er á Íslandi í álbræðslur. Ísland hefði átt að vera fyrirmyndarríki á loftlagsráðstefnunni sem hefst í Kaupmannahöfn á morgun. Ísland hafi sérstöðu sem skýri hvers vegna allar þessar stjörnur komi til Íslands og það sé eitthvað sem landið eigi að halda á lofti og skapa sér sérstöðu í stað þess að setja upp útlend álver.
Boyes fjallaði fyrst um Íslands í þorskastríðinu 1975 og hefur síðan fylgst með íslenskum málefnum. Hann er fréttaritari í Berlín fyrir dagblaðið The Times í London, en er að auki höfundur fjölda bóka.