Nýr meirihluti Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í Grindavík hefur verið myndaður. Ólafur Örn Ólafsson verður bæjarstjóri, en hann var bæjarstjóri þar til upp úr meirihlutasamstarfi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks slitnaði sumarið 2008.
Áfram unnið samkvæmt auðlindastefnu Grindavíkurbæjar
Fréttatilkynning frá nýjum meirihluta í bæjarstjórn Grindavíkur: „Samstarf Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna í Grindavík. Flokkarnir eru sammála um að starfa saman til loka kjörtímabils með Ólaf Örn Ólafsson sem bæjarstjóra.
Hvað varðar málefni eru flokkarnir m.a. ásáttir um að vinna samkvæmt auðlindastefnu Grindavíkurbæjar í orkumálum, undir forustu forseta bæjarstjórnar. Flokkarnir munu standa vörð um þá stefnu að styðja við íbúa sína á krepputímum. Þetta verður gert með því að standa vörð um atvinnulífið í Grindavík ásamt því að laða til bæjarins ný atvinnutækifæri. Þrátt fyrir miklar hækkanir verðlags er ætlunin að hafa því sem næst óbreytta gjaldskrá. Þá er einhugur í meirihlutanum um það að hefja skólastarf í Menntaskóla Grindavíkur haustið 2010," að því er segir í tilkynningu.
Hörður Guðbrandsson verður forseti bæjarstjórnar og Guðmundur Pálsson verður formaður bæjarráðs.
Miklar sviptingar hafa verið í bæjarstjórn Grindavíkur undanfarin ár. Meirihluti Samfylkingar og Framsóknarflokks tók við sumarið 2008 og Jóna Kristín Þorvaldsdóttir tók við bæjarstjórastarfinu af Ólafi Erni. Á þeim tíma var talað um að starfslokasamningur Ólafs Arnar hafi hljóðað upp á 45 milljónir króna.
Í júní 2008 var haft eftir Jónu Kristínu í Morgunblaðinu að upphæðin sé í fullu samræmi við þann ráðningarsamning sem gerður var við upphaf kjörtímabils árið 2006 og því hafi alla tíð legið ljóst fyrir að kostnaðurinn yrði þessi ef til þess kæmi að Ólafur lyki ekki tímabilinu.
Fulltrúar VG í bæjarstjórn, þeir Garðar Páll Vignisson og Björn Haraldsson voru áður bæjarfulltrúar annarra stjórnmálaflokka en gengu til liðs við VG sl. sumar. Garðar var áður bæjarfulltrúi Samfylkingar en Björn fyrir Frjálslynda flokkinn.