57 milljarða gjaldeyrisviðskipti rannsökuð

Reuters

Heildarfjárhæð þeirra viðskipta sem Seðlabankinn er með til athugunar vegna gruns um brot á gjaldeyrishöftunum nemur samtals 57.557.286.955 krónum. Þá bíða um 100 ný mál  frekari úrvinnslu hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans.

Þetta kemur fram í svari viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Ásbirni Óttarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi. 110 fyrirtæki  sæta rannsókn en þau eru með tæplega 92% af heildarfjárhæðinni en 134 einstaklingar, sem eru með 8% af heildarfjárhæðinni, eru einnig til rannsóknar.

Tímabil þessara meintu brota nær frá setningu gjaldeyrisreglnanna 28. nóvember 2008 til 1. október sl. Í svarinu segir, að fjöldi mála og heildarfjárhæðir muni aukast umtalsvert þegar fram líði stundir að því er Seðlabankinn telur. Auk þeirra mála, sem bíða úrvinnslu hafa þau mál, sem nú eru til skoðunar, ekki verið fullrannsökuð og því sé ljóst að heildarfjárhæð meintra brota á reglum um gjaldeyrismál mun verða umtalsvert hærri. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert