Ætla að auka hlutafé HS Orku

Stjórn HS Orku hefur boðað til hluthafafundar í félaginu þann 14. desember nk.Á dagskrá fundarins verða breytingar á á samþykktum félagsins þannig að fækkað verði í stjórn úr 7 mönnum í 5 og frestur til að nýta forkaupsrétt styttur úr tveimur mánuðum í einn. Þá óskar stjórn eftir heimild til þess að auka hlutafé félagsins um allt að einn milljarð króna að nafnvirði með áskrift nýrra hluta og að stjórnin ákveði útboðsgengi og greiðslukjör.

Í síðasta mánuði eignaðist Geysir Green Energy (Geysir) meirihlutann í HS Orku en Geysir keypti 34% hlut í HS Orku af Reykjanesbæ. Kanadíska jarðhitafyrirtækið Magma Energy Corporation keypti á sama tíma 8,6% hlut í HS Orku af Geysi. „Með sölunni lýkur fyrri áfanga af tveimur í sölu Geysis á alls 10,8% hlutafjár í HS Orku til Magma fyrir rúma þrjá milljarða króna sem félagið staðgreiðir og mun hafa áhrif til styrkingar á gengi krónunnar," að því er sagði í fréttatilkynningu frá HS Orku frá 17. nóvember sl.

Eftir viðskiptin er Geysir eigandi 57,4% hlutafjár í HS Orku hf. en seinni áfangi viðskiptanna er sala á 2,2% hlut að auki til Magma í byrjun næsta árs. Að þeim viðskiptum loknum verður Geysir eigandi 55,2% hlutar í HS Orku. Kaup Magma á hlut í HS Orku koma í kjölfar samkomulags Reykjanesbæjar og Geysis um breytt eignarhald á HS Orku og HS Veitum. Með því samkomulagi eignaðist Geysir nær allan hlut Reykjanesbæjar í HS Orku en lét á móti hlut sinn í HS Veitum.

Reykjanesbær á nú 66,75% hlut í HS Veitum og 0,75% hlut í HS Orku. Áður hefur Reykjanesbær keypt allar auðlindir HS Orku af félaginu og leigir því nýtingarréttinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert