Tekur við bæjarstjórastarfinu á fimmtudag

Ólafur Örn Ólafsson bæjarstjóri í Grindavík
Ólafur Örn Ólafsson bæjarstjóri í Grindavík

Ólafur Örn Ólafsson tekur væntanlega við starfi bæjarstjóra í Grindavík á fimmtudag en boðað hefur verið til bæjarstjórnarfundar á miðvikudagskvöldið. Eins og fram kom í fréttum mbl.is í gærkvöldi hefur verið myndaður nýr meirihluti í bæjarstjórn Grindavíkur. Ólafur Örn var áður bæjarstjóri í Grindavík en hann lét af störfum sumarið 2008 þegar síðasti meirihluti var myndaður í sveitarfélaginu.

Um er að ræða meirihluta Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna en i síðasta meirihluta voru Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn.

Ólafur Örn hefur verið á launaskrá hjá Grindavíkurbæ frá því hann lét af störfum en það er í samræmi við þá reglu að bæjarstjórar eru ráðnir tímabundið til fjögurra ára og var það gert þegar Ólafur Örn var ráðinn bæjarstjóri í Grindavík árið 2006. Segir Ólafur Örn að ráðning hans nú muni ekki þýða aukakostnað fyrir sveitarfélagið. Hann muni ekki flytja til Grindavíkur en eins og kunnugt er keypti Grindavíkurbær hús hans í bænum þegar hann lét af störfum. Ólafur Örn býr í Njarðvík og hyggst búa þar áfram en sveitastjórnarkosningar fara fram í lok maí á næsta ári.

Aðspurður um hvers vegna hann taki við starfi bæjarstjóra á ný segir Ólafur Örn að hann hafi tekið að sér það verkefni að stýra Grindavíkurbæ fyrir fjórum árum og því  verkefni ætli hann nú að ljúka við án þess að þiggja fyrir það aukagreiðslur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert