Áskorun um óskert framlög til SÁÁ

Sjúkraúsið Vogur
Sjúkraúsið Vogur Árni Sæberg

18.200 manns hafa skrifað undir áskorun til þingmanna um að hafna ráðagerðum um skerðingu á framlögum til áfengis- og fíkniefnameðferðar á vegum SÁÁ. Söfnun undirskrifta fer fram á vef SÁÁ.

„Við treystum því að þingmenn taki tillit til afstöðu þessa fólks. Þetta fólk biður ekki um mikið, aðeins að fyrirhuguð 70 milljón króna skerðing á framlögum til sjúkrahúsreksturs SÁÁ verði dregin til baka,” segir Þórarinn Tyrfingsson, formaður og yfirlæknir SÁÁ, í tilkynningu frá samtökunum.
 
Þórarinn segir að þótt 70 milljónir séu ekki há upphæð þá muni slík skerðing á framlagi ríkisins eyðileggja áfengis- og fíknimeðferð hjá SÁÁ. „Vegna samdráttar í framlögum fyrirtækja og einstaklinga í fyrra skárum við niður allt sem hægt var að skera niður hjá SÁÁ. Frekari niðurskurður mun rústa okkar starfi og þar með bitna helst á þeim sem veikastir eru,“ segir Þórarinn.
 
Samhliða söfnun undirskrifta hafa samtökin gefið út nýtt SÁÁ-blað, sem liggur frammi á fjölförnum stöðum. Í blaðinu rifjar þjóðkunnugt fólk upp mikilvægi starfs SÁÁ og ákallar stjórnvöld um að standa vörð um það sem vel er gert í heilbrigðisþjónustunni á Íslandi.

Meðal þeirra sem skrifa í blaðið eru Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands, ritstjórarnir fyrrverandi Styrmir Gunnarsson og Jónas Kristjánsson og séra Pálmi Matthíasson og Bubbi Morthens tónlistarmaður.

Undirskriftasöfnun SÁÁ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert