Allt fast í augnablikinu

Fjárlaganefnd á fundi. Mynd úr safni.
Fjárlaganefnd á fundi. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar

„Í stuttu máli er staðan sú að ég skil formann og varaformann fjárlaganefndar svo að þeir telja sig ekki bundna af samkomulaginu og að þetta sé málefni fjárlaganefndar,“ segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Höskuldur segir innanflokksátök í Samfylkingunni um framhald málsins.

„Staðan er því sú að í augnablikinu er allt fast,“ segir Höskuldur sem að sat fund fjárlaganefndar sem að lauk fyrir stundu.

Hann segir fulltrúa stjórnarinnar ekki hafa komið til móts við óskir stjórnarandstöðunnar.

„Við lögðum fram óskir um með hvaða hætti við vildum sjá málum háttað og fórum ýtarlega yfir það til hvaða aðila eigi að leita, erlendis og hér heima. Þá kemur aftur fram sú afstaða þeirra að þetta sé málefni fjárlaganefndar og að þeir telji sig ekki bundna af samkomulaginu,“ segir Höskuldur en eins og kunnugt er er Samfylkingarmaðurinn Guðbjartur Hannesson formaður fjárlaganefndar og Björn Valur Gíslason í Vinstri grænum varaformaður hennar.

Stíf fundahöld 

Fulltrúar þingflokkanna hafa fjórum sinnum fundað um framhald Icesave-málsins í dag. Fyrst kom fjárlaganefnd til fundar í morgun, því næst hittu þingflokksformenn forseta Alþingis og loks hittust formenn flokkanna til viðræðna um málið.

Á þeim fundi var ákveðið að einn úr hverjum þingflokki í fjárlaganefnd skyldi funda um málið og komast að niðurstöðu um hvernig málum skyldi háttað í nefndinni, til hvaða aðila ætti að leita og hvaða gagna skyldi leita eftir í samræmi við atriðin 16 sem að samið var um á fundi þingforseta og formanna flokkanna á föstudag.

En flokkarnir hafa í dag reynt að komast að samkomulagi um hvernig afgreiða megi málið til fjárlaganefndar áður en 2. umræðu um Icesave-frumvarpið lýkur. Markmiðið er að áður en greidd verða atkvæði um frumvarpið í 3. umræðu liggi fyrir umsögn og afgreiðsla nefndarinnar á áðurgreindum atriðum.

Innanflokksátök í Samfylkingunni

„Á fundi fjárlaganefndar í morgun kemur í ljós að það er ágreiningur með hvaða hætti eigi að afgreiða málið og þar kemur einnig fram að formaður og varaformaður nefndarinnar telja sig ekki bundna af samkomulaginu. Og þar með gengum við og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, af fundi,“ segir Höskuldur um atburðarásina í dag.

„Þetta eru orðin innanflokksátök milli þá væntanlega formanns fjárlaganefndar og forseta Alþingis um hver hafi umboð til að semja við stjórnarandstöðuna um lyktir málsins. Og þá væntanlega hvort formenn flokkanna hafi nokkuð um það að segja. Ég tel þetta einfaldlega vera núna innanflokksmál og svo vaknar sá grunur að stjórnarmeirihlutinn telji að hann hafi samið af sér í málinu og að þeir séu núna með einum eða öðrum hætti að reyna að hlaupast frá því samkomulagi sem að náðist hér fyrir helgi.“

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert