Flugeldur sprakk inni á salerni Hagaskóla í vesturbæ Reykjavíkur á öðrum tímanum í dag. Búið er að rýma skólann og slökkva eld sem kviknaði. Slökkvilið og lögreglan er á staðnum, og vinna slökkviliðsmenn nú við að reykræsta.
Eldur kviknaði í pappír inni á salerninu og var því strax lokað, skólinn rýmdur og kallað eftir aðstoð. Tilkynning barst kl. 13:50 og var slökkviliðið mætt nokkrum mínútum síðar og var fljótt að ráða niðurlögum eldsins sem kviknaði.
Sjúkrabílar eru á staðnum en að sögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hefur enginn verið fluttur á slysadeild.