Hagsmunasamtök heimilanna lýsa í ályktun yfir vonbrigðum með dóm
Héraðsdóms Reykjavíkur, í máli sem reis vegna deilna um lögmæti myntkörfuláns vegna bílakaupa. Saka samtökin héraðsdóm um að heimila samninga sem snúist um ólögmætt athæfi, eins og til dæmis þjófnað.
Í ályktun Hagsmunasamtaka heimilanna segir, að augljós lögbrot SP-fjármögnunar við samningsgerð séu í dómnum látin óátalin, þ.e.a.s. fjármálaafurð SP-fjármögnunar, skuldabréf tilgreint í íslenskum krónum með gengistryggingu við erlenda gjaldmiðla. Slík verðbreytingaákvæði séu greinilega óleyfileg samkvæmt lögum en dómari hengi úrskurð sinn á að lántaki hafi gert sér grein fyrir áhættu við gengistryggingu og að SP-fjármögnun eigi ekki sök á gengisbreytingum.
„Í ljósi ofangreinds virðist héraðdsómur heimila að stofnað sé til samninga sem snúast um ólögmætt athæfi eins og t.d. þjófnað og þeir verði efndir með fulltingi dómskerfisins því „meginregla íslensk samninga- og kröfuréttar er að samninga beri að efna”. Verði þessi niðurstaða ofaná í öðrum sambærilegum dómsmálum er nokkuð ljóst að íslensk fjármálafyrirtæki hafa fengið ótakmarkað veiðileyfi á íslenskan almenning án ábyrgðar í nokkru formi. Hagsmunasamtök heimilanna vilja þó ítreka að héraðsdómur sem þessi hefur samkvæmt lögfræðiáliti ekki fordæmisgildi," segir síðan í ályktuninni.