Óvissa um samkomulagið

Þingmennirnir Höskuldur Þórhallsson, Framsóknarflokki, og Birgitta Jónsdóttir, Hreyfingunni, gengu í morgun út af fundi fjárlaganefndar, en þar var frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave til umræðu. Höskuldur segir ágreining hafa verið uppi um túlkun á samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu um úrslausn málsins. Samkomulagið sé því í mikilli óvissu.

Icesave-frumvarpið er á dagskrá Alþingis í dag og segir Höskuldur ljóst að atburðir morgunsins muni hafa áhrif á umræðuna. Hann bendir á að meirihluti fjárlaganefndar hafi ekki viljað ræða fyrirkomulag samkomulagsins fyrr en á milli 2. og 3. umræðu, en við það hafi minnihlutinn verið ósáttur. Meðal þess sem ekki komst til umræðu á fundi nefndarinnar í morgun var hvernig fara ætti með þau fjórtán atriði sem stjórnarandstaðan telur standa út af borðinu vegna Icesave-málsins. Einnig var ágreiningur um hvaða sérfræðinga skuli leitað til.

„Við vildum fá skýra útlistun á því hvernig ætti að leysa þau fjórtán atriði sem standa út af borðinu og við bentum á. Meirihluti fjárlaganefndar vildi ekki ræða fyrirkomulag samkomulagsins fyrr en á milli 2. og 3. umræðu og það var strax ágreiningur um það hvernig ætti að standa að málinu. Til hvaða sérfræðinga ætti að leita. Ég skildi það þannig að þegar væri búið að gera út um nokkur atriði, þannig að ég tel samkomulagið komið í mikið uppnám,“ segir Höskuldur.

Þingfundur hefst í hádeginu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert