Bandaríska stórblaðið The New York Times fjallar í dag um Ragnar Axelsson, ljósmyndara Morgunblaðsins, og myndir sem hann hefur tekið á Grænlandi síðustu 25 árin.
„Hann hefur ferðast í jökulstormum, dottið niður sprungur og vaknað á ísjaka sem hefur rekið út á haf. En Ragnar Axelsson kemur alltaf aftur. Í 25 ár hefur hann ferðast til lítilla þorpa inúíta á afskekktustu svæðum Grænlands og tekið myndir af veiðihefðum sem eru 4.000 ára gamlar,“ segir meðal annars í grein The New York Times.
„Ég vil að aðrir sjái heiminn sinn,“ hefur blaðið eftir Ragnari. „Maður sér lífið í allt öðru ljósi á ísnum.“
Greinarhöfundurinn lýsir myndum Ragnars af öfgum í náttúru Grænlands, risastórum ísjökum, sleðahundum og veiðimönnum. „James Bond er bara lítill karl“ í samanburði við þessa menn, hefur blaðið eftir Ragnari. „Þeir hafa ákveðna tilfinningu fyrir náttunni sem flest okkar hafa ekki lengur. Hver dagur er álitinn gjöf frá landinu.“
Í greininni kemur fram að veiðimönnunum hefur fækkað, meðal annars vegna þess að hlýnun jarðar og bráðnun jökulhettunnar hafi orðið til þess að veiðitíminn hafi styðst.
Umfjöllun New York Times um Ragnar Axelsson