Var kunnugt um bréfaskiptin

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir ýmislegt áhugavert í svörum Flanagans.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir ýmislegt áhugavert í svörum Flanagans. Heiðar Kristjánsson

Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, var þegar í sumar kunnugt um þau bréfaskipti Indriða H. Þorlákssonar, aðstoðarmanns fjármálaráðherra, og Mark Flanagan, fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í málefnum Íslands, sem nýlega voru birt á vefsíðunni Wikileaks.

„Það var sérstaklega tekið fram að ekki mætti ræða það sem var í leynimöppunni, segir Sigmundur Davíð sem er mjög ósáttur viðræður samninganefndar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á tíma minnihlutastjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. „Það er algjörlega úr samræmi við það sem lofað var.“

Því hafi verið heitið að ekkert yrði gert í Icesave málinu án samráðs við Framsóknarflokkinn. „Enda var ég búin að lýsa því yfir að ég gæti ekki sætt mig við að menn kvittuðu upp á raunverulegar lagalegar skuldbindingar.“

Sigmundur Davíð kveðst hafa nefnt margt af því sem finna má í bréfaskiptum  Indriða og Flanagan á lokuðum fundum með  forystu stjórnarflokkanna, en hann hafi engin svör fengið sem máli skipta.
Óeðlilegt sé t.a.m. að menn leiti ráðgjöf hjá sama aðila og þeir telja að verið sé að nota gegn sér. Ýmislegt í svari Flanagans sé sömuleiðis áhugavert.

„Til dæmis þessi ríkisábyrgðarleið sem nú er verið að ræða, Flanagan telur að það felist í raun enginn munur á henni eða því að þetta lendi bara á ríkinu og það er ekki í samræmi við það sem að samningamenn og ríkisstjórnin hafa haldið fram.“

Flanagan haldi því sömuleiðis fram að hann hafi komið skilaboðum til Breta og Hollendinga um að skuldastaða íslenska þjóðarbúsins sé verri en áætlað var og þar af leiðandi þoli menn ekki eins háar álögur og ráð hafði verið fyrir gert.

„Þetta sýnir í fyrsta lagi hversu tæpt  er á því að menn standi undir þessu ef  breytingar í skuldahlutfallinu þýða að menn aðlagi álögurnar eftir því og hins vegar nú þegar komið hefur í ljós að skuldirnar eru svo miklu meiri en þær voru taldar á þessum tíma, þá hlýtur það líka að þýða að þessar álögur eru of miklar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert