Vilja að leynd verði aflétt af öllum skjölum

Gunnar Bragi Sveinsson og Árni Þór Sigurðsson á Alþingi.
Gunnar Bragi Sveinsson og Árni Þór Sigurðsson á Alþingi. mbl.is/Ómar

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hvöttu til þess á Alþingi í dag, að leynd yrði aflétt af öllum skjölum, sem eru aðgengileg þingmönnum í tengslum við Icesace-málið. Þingmaður Framsóknarflokks sagði að ástæðan fyrir því að skjölin væru enn leynileg væri að ríkisstjórnin vildi ekki fá þau í umræðuna.

„Hvers vegna í ósköpunum eru þessi gögn í leynimöppu sem þingmenn þurfa að skoða í lokuðu herbergi.? Jú, það er vegna þess að þetta eru of viðkvæm gögn til að ríksistjórnin myndi þola að þau færu í umræðuna," sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks.

Tölvupóstsamskipti Indriða H. Þorlákssonar, þáverandi ráðuneytisstjóra, og Mark Flanagan, starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem birt voru í gærkvöldi á vefnum Wikileaks, eru meðal skjalanna í „leynimöppunni." Gunnar Bragi sagði, að þessir póstar staðfestu þau óheilindi, sem stjórnarflokkarnir hefðu viðhaft í Icesave-málinu.

Gunnar Bragi, að það væri algerlega óþolandi að sjá hvernig Vinstri græn og Samfylkingin, Icesave-flokkarnir, fóru á bakvið Framsóknarflokkinn, sem studdi minnihlutastjórn þessara flokka stuðning fyrir kosningarnar í apríl.

„Það er ljóst (af þessum tölvupóstum) að það var búið að teikna upp samkomulag um Icesave fyrir kosningar. Það mátti hins vegar ekki koma í ljós fyrir kosningar því það hefði örugglega farið illa með þá flokka, sem fengu umboð frá þjóðinni til að starfa saman og hafa nú myndað ríkisstjórn," sagði Gunnar Bragi og bætti við að það væri óþolandi þegar markvisst væri að leyna upplýsingum fyrir fólki.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að ríkisstjórnin ætti að hafa frumkvæði að því að aflétta leynd af umræddum skjölum. Þar væri ekkert, sem mætti ekki koma fyrir almenningssjónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert