„Þetta er bara ekki rétt. Það er ekki uppi ágreiningur um þetta mál innan okkar raða. Það er ekkert meira um það að segja,“ segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra aðspurð um þau ummæli Höskuldar Þórhallssonar að upp sé kominn ágreiningur innan Samfylkingarinnar um framhaldið í Icesave-málinu.
- Þú vísar því þar með á bug að það sé uppi ágreiningur á milli Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur og Guðbjarts Hannessonar um hvernig beri að halda málinu áfram?
„Já. Ég hef ekki heyrt um neinn slíkan ágreining.“
- Hvernig sérðu fyrir þér að framhaldið gæti orðið í kvöld?
„Ég get ekkert fullyrt um það en það væri best fyrir alla ef menn reyndu að ná sæmilegu samkomulagi um að ljúka þessu af því að það eru mörg verkefni sem að bíða [...] Það hefur legið fyrir allan tímann að við hefðum viljað klára þetta nokkuð hratt og örugglega, enda margt sem bíður. Þetta hefur verið rætt í meira en hálft ár.“