160 milljarða eignir lausar

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að 180 milljarðar króna væru lausir hjá skilanefnd Landsbankans og áætlað væri að 120 milljarðar króna myndu innheimtast af eignum Landsbankans á næsta ári.

Þannig gætu yfir 300 milljarðar króna orðið lausir til útgreiðslu á síðari hluta næsta árs. Það þýddi að Tryggingasjóður innistæðueigenda gæti greitt 160 milljarða inn á höfuðstól Icesave-lánanna og lækkað hann um 20%.

Í lok ræðu sinnar, sem jafnframt var sú síðasta í annarri umræðu um Icesave-málið, sagðist Steingrímur óhræddur við að mæta kjósendum á kjördegi 2013, með þessar málalyktir í farteskinu.

„Ég er óhræddur við að rökstyðja þetta fyrir kjósendum,“ sagði hann. Mestu skipti að árið 2013 yrði hægt að segja að endurreisn Íslands hafi tekist og að Íslendingar verði þá í sókn.

Hann spurði þingmenn hvernig þeir gætu gert þjóð sinni mest gagn. „Er það með því að bera hvort annað svikabrigslum? Er það með því að hafa þingið óstarfhæft? Eða að bregðast ekki þjóðinni, að við getum tekið þungbærar ákvarðanir ef þær eru óhjákvæmilegar?“

„Þeir sem ekki treysta sér til að taka þátt í þeirri umræðu, geri þeir svo vel en flækist ekki fyrir,“ voru lokaorð ræðu hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert