Afar ólík sýn á Icesave

Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi.
Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi. mbl.is/Eggert

Mjög ólík sýn stjórnar og stjórnarandstöðu á Icesave-samninga íslenskra stjórnvalda kom skýrt fram á Alþingi þegar 2. umræðu um frumvarp um ríkisábyrgð vegna skuldbindinganna lauk þar í dag en formenn stjórnmálaflokkanna fluttu þá ræður um málið. 

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði að sú samninga- og samstarfsleið sem stjórnvöld hefðu valið í málinu, væri leið raunsæis en sú leið, sem stjórnarandstaðan vildi fara, að láta kröfuhafa vísa málinu til dómstóla, væri ófær.  

„Stjórnarandstaðan hefur lagt til að ríkisstjórnin taki upp viðræður við Evrópusambandsins í þeim tilgangi að það hafi milligöngu um að leiða deilur þjóðanna til lykta. Öll þau skilaboð, sem við höfum fengið frá Evrópusambandinu eru um, að við verðum að standa við lágmarkstryggingu innistæðna og hvað lánskjörin varðar getum við ekki með nokkru móti haldið því fram að þau séu óeðlileg," sagði Jóhanna.

Hún sagði, að í þeim tölvupóstsamskiptum, sem vefurinn Wikileaks hefði birt og þingmenn hefðu haft aðgang að frá því í sumar, kæmi fram að þau lánakjör, sem Íslendingum byðist í samningum við Breta og Hollendinga, væru betri en lánakjör sem fátækustu ríkjum heims bjóðast hjá svonefndum Parísarklúbbi í lánaviðskiptum milli ríkja.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði hins vegar að Bretar og Hollendingar hefðu neytt íslensk stjórnvöld til að fallast á afarkosti.

„Þetta mál snýst um vörn fyrir hagsmuni Íslands gegn ásælni stóru freku ríkjanna sem hlusta ekki á nein rök og láta ekki bjóða sér að ágreiningur verði leystur fyrir dómstólum. Hvenær í ósköpunum myndu Bretar eða Hollendingar sætta sig við það að vera þvingaðir til niðurstöðu í slíkum málum og meinað um þá leið að bera ágreininginn fyrir dómstólum ef þeir teldu sig ekki bera skuldbindingar í lögum? ... Aldrei myndi nokkur önnur Evrópuþjóð láta fara svona með sig eins og ríkisstjórnin er að leggja til að farið verði með okkur," sagði Bjarni.

„Við eigum að standa í lappirnar í þessu máli og ekki sætta okkur við neina pólitíska afarkosti," bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert