Fallist á sjónarmið Íslands

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur fallist á sjónarmið Íslands í máli lánardrottna íslensku bankanna í bráðabirgðaniðurstöðu sem send hefur verið til forsætisráðuneytisins. Um er að ræða kvörtun hóps kröfuhafa á hendur gömlu bönkunum, SPRON og Sparisjóðabanka Íslands vegna aðgerða íslenskra yfirvalda í tengslum við setningu neyðarlaganna.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfund í dag, að þetta væri mjög mikilvæg yfirlýsing sem treysti neyðarlögin í sessi. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að gott væri að fá þessa niðurstöðu frá ESA og hún styrkti þær almennu ráðstafanir, sem gripið var til í kjölfar hrunsins.  

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu kemur fram að bráðabirgðaniðurstaða ESA er í stuttu máli sú að ákvæði neyðarlaganna, einkum varðandi forgang sem innstæðum var veittur, og ráðstafanir íslenskra stjórnvalda á grundvelli laganna standist kröfur EES-samningsins og önnur lagaleg skilyrði.

„Ekki hafi verið nein önnur úrræði sjáanleg en þau sem gripið var til sem hefðu getað spornað við algjöru hruni efnahagslífsins á Íslandi. Í kvörtununum var reynt að halda því fram að nokkrar aðrar leiðir hefðu verið færar og ESA fellst á það sjónarmið stjórnvalda að neyðarlögin og ákvarðanir FME hafi verið einu aðgerðirnar sem voru trúverðugar við þær aðstæður sem uppi voru.

Tekið er sérstaklega fram í bráðabirgðaniðurstöðunni að ekki sé fjallað um hugsanlega mismunun á milli innlendra og erlendra innstæðueigenda," að því er segir í tilkynningu.

Um bráðabirgðaniðurstöðu er að ræða en ESA býður kvartendum að senda inn viðbrögð vegna þessa fyrir 15. janúar 2010. Verði endanleg niðurstaða ESA óbreytt hafa kvartendur ekki möguleika til að skjóta málinu til EFTA-dómstólsins og málsmeðferð innan EES væri því lokið.

Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að íslenskur dómstóll sem fjallaði um sambærilegt mál tengt bankahruninu óskaði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins.

Geir H. Haarde, var forsætisráðherra og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra …
Geir H. Haarde, var forsætisráðherra og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra þegar neyðarlögin voru sett í fyrra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert