Fundað fram eftir nóttu um Icesave

Fundi lauk á Alþingi í nótt klukkan 4:19 eftir að rætt hafði verið um frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna. Þegar fundi lauk voru aðeins forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna fimm á Alþingi eftir á mælendaskrá en þeir munu halda ræður sínar þegar þingfundur hefst að nýju klukkan 12 í dag.

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefnda kynnti í gærkvöldi að komið yrði til móts við þá kröfu stjórnarandstöðunnar að farið yrði yfir 16 atriði sem varða samningana í fjárlaganefnd.

Ætlunin er að nefndin ljúki álitsgerð á umræddum atriðum á milli 2. og 3. umræðu um frumvarpið en Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kveðst aðspurður ekki viss um að henni ljúki fyrir jól, í ljósi anna hjá nefndinni.

Hann segir niðurstöðuna byggjast á samkomulaginu við forseta Alþingis á föstudag. „Í fyrsta lagi var þetta spurning um að fá lögfræðiálit frá sérfræðingum í enskum lögum. Það verður unnið af lögmannsstofunni Mishcon de Reya. Þar viljum við að enskir sérfræðingar stofunnar skoði texta samninganna og eins hvaða þýðingu það hafi að ensk lög gildi um samningana en ekki íslensk. Síðan gerðum við kröfu um að það yrði fengið hlutlægt og óháð lögfræðiálit varðandi spurninguna um stjórnarskrána að því er varðar framsal dómsvalds og umfang ríkisábyrgðar.“

„Þá gerðum við kröfu um að farið yrði yfir þessa efnahagslegu þætti, greiðsluþolið, gengisáhættuna og ákvæðið sem kennt er við Ragnar H. Hall lögfræðing og fleira. Því er komið í ákveðinn farveg, m.a. með aðkomu hugveitunnar Center for European Policy Studies,“ segir Kristján og bætir því við að nefndin vilji fá álit á áhættu þjóðarbúsins vegna lánasamninganna og nefnir þar Seðlabankann og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert