Lífeyrissjóðir stofna Framtakssjóð Íslands

Frá stofnfundi Framtakssjóðs Íslands.
Frá stofnfundi Framtakssjóðs Íslands. mbl.is/Golli

Fulltrúar sextán lífeyrissjóða innan vébanda Landssamtaka lífeyrissjóða stofnuðu formlega í dag Framtakssjóð Íslands, nýtt fjárfestingarfélag sem ætlað er að taka þátt í og móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs í kjölfar falls fjármálakerfisins.

Stofnendur hafa skuldbundið sig til að leggja nýja fjárfestingarsjóðnum til um 30 milljarða króna í hlutafé. Enn er opið fyrir skráningu hlutafjár í sjóðnum.

Gert er ráð fyrir nýfjárfestingum á vegum sjóðsins næstu þrjú árin og að sjóðurinn verði starfræktur í alls sjö ár. Heimilt er að framlengja rekstrartímann í tvígang, í eitt ár í senn.

Á stofnfundinum var kjörin sjö manna stjórn Framtakssjóðs Íslands. Hana skipa Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst, Auður Finnbogadóttir, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar, Baldur Þór Vilhjálmsson, forstöðumaður eignastýringar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Guðfinna Bjarnadóttir, fyrrverandi alþingismaður, Ragnar Önundarson, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri fjármála- og þróunarsviðs Háskólans í Reykjavík, og Vilborg Lofts, rekstrarstjóri heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

Varamenn stjórnar eru Sigurbjörn Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stafa lífeyrissjóðs, Helga Indriðadóttir, sérfræðingur hjá Almenna lífeyrissjóðnum, og Kristján Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins.

Stjórnin kemur saman í fyrsta sinn fimmtudaginn 10. desember og skiptir með sér verkum. Gert er ráð fyrir að hún auglýsi innan tíðar starf framkvæmdastjóra Framtakssjóðs Íslands laust til umsóknar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka