Óvíst með fjölda ferða milli lands og Eyja

Gert er ráð fyrir að siglingar hefjist frá Landeyjahöfn næsta …
Gert er ráð fyrir að siglingar hefjist frá Landeyjahöfn næsta sumar.

Samgönguráðherra segir, að líklega verði gerðar breytingar á ferðafjölda ferju milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar frá upphaflegri áætlun eins og hún lá fyrir í útboði smíði nýrrar ferju en nú er gert ráð fyrir að Herjólfur verði notaður í þessar siglingar. Bæjarstjóri Vestmannaeyja segir niðurskurður í samgöngum Eyjamanna sé kominn út fyrir allt velsæmi.

Gert er ráð fyrir að Landeyjahöfn verði tilbúin fyrir siglingar í júlí árið 2010. Fram kemur í svari Kristjáns L. Möller, samgönguráðherra, við fyrirspurn Unnar Brár Konráðsdóttur, alþingismanns, að unnið sé að öllum þáttum breyttra samgangna milli lands og Eyja, m.a. ferðaáætlunum.

Þannig hafi Vegagerðin óskað eftir breytingum á samningi við Eimskip, sem gerir Herjólf út, frá og með júlí 2010 en samningur við félagið gildi til ársloka 2010. Þá sé verið að skoða rekstrarforsendur ferjunnar miðað við breytta siglingaleið skipsins.

Líklega verði gerðar breytingar á ferðafjölda frá upphaflegri áætlun eins og hún lá fyrir í útboði smíði nýrrar ferju þar sem miðað var við minna skip í útboðsgögnum og þá lægri rekstrarkostnað. Þá liggi fyrir að fjárveitingar til málaflokksins hafi verið skornar niður á árinu 2010.  Verið sé að afla frekari upplýsinga en þegar þær liggi fyrir verði hægt að taka afstöðu til fjölda ferða.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir við vefinn Eyjafréttir í dag, að Eyjamenn hafi skilning á hrikalegri stöðu í ríkisrekstri, en niðurskurður í samgöngumálum íbúa þar sé kominn út fyrir allt velsæmi.

„Núna er staðan sú að við að erum að horfa upp á að samgönguyfirvöld ætla ekki að stuðla að áframhaldandi flugi milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, dregið hefur úr Bakkaflugi, hætta á með tvær ferðir á dag alla daga og hætt var við nýsmíði á ferju sem sigla átti í Landeyjahöfn. Ef að ofan á þetta á að bætast ákvörðun um að skerða það þjónustustig sem við höfum unnið útfrá hvað Landeyjahöfn varðar frá og með 1. júlí þá er botninum náð," segir Elliði við vefinn.

Eyjafréttir

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert