Þingmenn Hreyfingarinnar gagnrýna málflutning formanns fjárlaganefndar, Guðbjarts Hannessonar, vegna þeirrar leyndar sem hvílir á gögnum er varða Icesave. Í fréttatilkynningu segjast þeir hafa ítrekað óskað eftir því í ræðustóli Alþingis.
„Formaður fjárlaganefndar heldur því fram að aldrei hafi verið beðið um að leyndinni verði aflétt. Það er ekki allskostar rétt. Ítrekað báðu þingmenn Hreyfingarinnar um að leyndinni yrði aflétt í ræðustóli Alþingis.
Þá bað þingflokksformaður Hreyfingarinnar um að tölvupóstum á milli Indriða H. Þorlákssonar og Mark Flanagan, dags. 13. og 14. apríl 2008, yrði dreift til allra nefndarmanna utanríkismálanefndar áður en fundur með Franek Rozwadowski, dags. 17. júlí 2009, sem Birgitta Jónsdóttir kallaði eftir yrði haldinn. Ekki var hægt að verða við þeirri beiðni með öðrum hætti en að umræddum tölvupóstum var varpað upp á tjald, nefndarmönnum til skoðunar.
Til að tryggja að boðleiðir séu réttar hefur Birgitta Jónsdóttir boðsent fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, formlega beiðni um að trúnaði verði nú þegar aflétt af gögnunum í „leynimöppunni“ svokölluðu, enda ekkert sem réttlætir að þau séu ekki aðgengileg almenningi. Í ljósi orða Guðbjarts Hannessonar í Fréttablaðinu í dag hlýtur að verða brugðist við þessari beiðni án tafar," að því er segir í fréttatilkynningu frá þingmönnum Hreyfingarinnar.