Sigraði í ljósmyndakeppni

Ljósmynd Sævars Geirs Sigurjónssonar, „Super Challenging“.
Ljósmynd Sævars Geirs Sigurjónssonar, „Super Challenging“.

Ljósmynd Sævars Geirs Sigurjónssonar „Super Challenging“ sigraði í ljósmyndasamkeppni Evrópska Sundsambandsins (LEN) 2009. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í tengslum við Evrópumeistaramótið í Tyrklandi en Sævar fer þangað í boði LEN.

Íslendingar gera það gott í ljósmyndakeppnum þessa dagana því að Bragi J. Ingibergsson, hefur verið valinn stafrænn ljósmyndari ársins (e. Digital Camera Photographer of the Year) í keppni sem breska dagblaðið The Daily Telegraph styður.

Á vef sundfélagsins Óðins segir um glæsilegan árangur Sævars Geirs (sjá einnig):

„Eins og fram hefur komið sendi Sævar inn 10 myndir í keppnina. Almenningi gefst kostur á að greiða atkvæði á netinu og endaði „Super Challenging“ , sem tekin var á Gullmóti KR 2009, þar meðal efstu mynda. Dómnefnd LEN valdi hana síðan sem bestu myndina, enda er hún hreint listaverk.

Sævar mun halda til Tyrklands 10. desember næstkomandi og veitir verðlaununum viðtöku í hátíðarkvöldverði. Ekki verður þó skilið við málið án þess að geta þáttar Karenar Malmquist sem aðstoð hefur Sævar með ýmsum hætti í tengslum við samkeppnina og hvatt hann áfram.

Þeir sem fylgast hafa með sundmótum, bæði á Akureyri og víðar, hafa vart komist hjá því að taka eftir Sævari á bakkanum. Ljósmyndun er áhugamál hans og ástríða og hefur hann komið sér upp afar fullkomnum Canon-ljósmyndabúnaði.

Hann hefur verið óþreytandi að mynda á sundmótum og fleiri íþróttaviðburðum. Ljósmyndir hans á Óðins-síðunni, og raunar hjá fleiri félögum, skipta orðið hundruðum. Sundfélagið Óðinn er að vonum afar stolt af sínum manni og sendir honum af þessu tilefni innilegar hamingjuóskir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert