Lögreglan á Ísafirði hefur ekki fengið brugg- eða smyglmál á áfengi inn á borð til sín en Önundur Jónsson, yfirlögregluþjónn á Ísafirði, segir að lögreglan hafi heyrt það að bruggun hafi aukist gríðarlega. Þetta kemur fram á vef Bæjarins besta í dag.
„Þetta hefur ekki komið inn á borð hjá okkur, en maður heyrir það útundan sér að bruggun hefur aukist gríðarlega,“ segir Önundur Jónsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Ísafirði, inntur eftir staðfestingu á þeim orðrómi að brugg í heimahúsum og smygl hafi aukist í kjölfar hækkandi áfengisverðs.
„Þetta kemur náttúrulega ekkert inn á borð hjá
okkur, fyrr en við förum að leita eftir því,“ segir Önundur, „en það er
bara rökrétt að fólk leitar annarra leiða til að verða sér úti um
áfengi þegar verðið hækkar. Það hættir ekki að drekka. Það sem mér
finnst hins vegar skuggalegast er að þetta er vatn á myllu dópsala.
Þeirra söluvara verður á miklu hagstæðara verði í samanburði við
áfengið og auðveldara að sannfæra unglingana um að miklu sniðugra sé að
kaupa sér hass en áfengisflösku.“
„Við erum líka vakandi fyrir
því að farið verði að selja brugg á götum úti eins og gert var fyrir
tíu árum, en enn hefur ekki borið á því.“
Önundur segir líka
óhjákvæmilegt að smygl aukist með hækkandi áfengisverði. Einnig hafi
borist fregnir af því að sala á bruggvörum hafi stóraukist í þeim
verslunum sem sérhæfa sig í þeim. „Það segir manni það að það er verið
að brugga bæði léttvín og bjór í stórum stíl og í framhaldi af því
eykst drykkjan. Ef þú ert með 20 flöskur af áfengi heima hjá þér, þá
bara drekkurðu meira, það er ekkert flóknara en það. Og það er búið að
lauma þeim upplýsingum að mér að alls staðar þar sem því verður við
komið sé fólk byrjað að eima.“
Önundur segir Finna hafa varað
Íslendinga við hækkun áfengisverðs, þeir hafi lent í miklum dóp- og
bruggfaraldri eftir slíkar hækkanir hjá sér. „Hækkun á áfengisverði er
ekkert annað en ávísun á meiri heimaneyslu,“ segir Önundur.