Tveir fyrrum starfsmenn Kaupþings voru í morgun dæmdir í átta mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknaraembættinu eru dómarnir í báðum tilvikum óskilorðsbundnir.
Mennirnir, Daníel Þórðarson, fyrrverandi sjóðstjóri peningamarkaðssjóðs annars vegar, og Stefnir Agnarsson, fyrrverandi miðlari í skuldabréfamiðlun hins vegar, voru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun. Ríkislögreglustjóri ákærði þá fyrir að hafa sett inn kauptilboð í Kauphöllina í bréf Exista alls sex sinnum í janúar og febrúar á síðasta ári, að fjárhæð fimm milljónir króna í hvert sinn. Þannig hafi þeir haft áhrif á verð á bréfum fyrirtækisins í lok dags, að því er fram kom við þingfestingu málsins í héraðsdómi í mars sl.
Kauphöllin lét Fjármálaeftirlitið vita í byrjun mars 2008
Upphaf dómsmálsins má rekja til þess að Kauphöllin sendi bréf til Fjármálaeftirlitsins þann 4. mars 2008 þar sem kauptilboð sem Stefán hafði sett inn í viðskiptakerfi Kauphallarinnar eru rakin en tilboð hans viku talsvert frá fyrirliggjandi kauptilboðum.
Þann 10. mars 2008 óskaði Fjármálaeftirlitið eftir upplýsingum frá Kaupþingi vegna málsins og í svarbréfi bankans sem er dagsett 18. mars sama ár kemur fram að bankinn hafi lokið frumathugun á málinu og líti það alvarlegum augum. Var þar óskað eftir því að Fjármálaeftirlitið rannsaki málið frekar. Jafnframt er þess getið að starfsmennirnir, Daníel og Stefnir, hafi verið leystir frá störfum hjá bankanum.
Í maí 2008 sendi Fjármálaeftirlitið kæru til lögreglu vegna framferðis mannanna. Teknar voru skýrslur af þeim hjá lögreglu í nóvember 2008 og í janúar 2009.
Sannað þótti að um samstarf var að ræða
Segir í niðurstöðu dómsins að sannað þykir með framburði Daníels og Stefnis og með öðrum gögnum málsins að þau sex kauptilboð sem um ræðir hafi öll verið sett inn við lokun markaðar á tímabilinu 25. janúar 2008 til 22. febrúar 2008. Félagarnir neita því að hafa sett kauptilboðin inn í sameiningu eins og ákært var fyrir. Hins vegar liggja fyrir upptökur af símtölum þeirra þar sem þeir ræddu kauptilboðin og skipulögðu þau símleiðis. Meðal annars um áhrif og að þau væru markaðsmyndandi. Þykir það því sannað að þeir hafi sett tilboðin inn í sameiningu þrátt fyrir að þeir hafi neitað því fyrir dómi. Jafnframt er vísað til tölvupóstsamskipta þeirra um kauptilboðin.
Sýndu einbeittan brotavilja
Segir jafnframt í niðurstöðu dómsins að hvorugur mannanna hafi áður sætt refsingu en markaðsmisnotkun varðar sektum eða fangelsi allt að sex árum. Brot þeirra séu alvarleg og ítrekuð. Er þeim virt það til refsiþyngingar að þeir unnu brotin í sameiningu. „Ákærðu voru fagmenn, hvor á sínu starfssviði. Þótt hvorugur þeirra hafi haft persónulegra hagsmuna að gæta við framningu brotanna þykir háttsemi þeirra sýna styrkan og einbeittan brotavilja."
Daníel var jafnframt dæmdur til að greiða lögmanni sínum tæpar 1,2 milljónir króna í málsvarnarlaun og var Stefnir einnig dæmdur til hins sama.