Hæstiréttur felldi í gær úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að ekki þyrfti að fara fram opinber skipti á dánarbúi skákmannsins Bobby Fischer. Féllst Hæstiréttur þar með á kröfu systursona Fischer um að opinber skipti fari fram og er niðurstaða Hæstaréttar byggð á því að ekki hafi verið lögð fram fullnægjandi sönnun um að Fischer og Myoko Watai hafi gengið í hjónaband.
Guðjón Ólafur Jónsson, lögmaður systursona Fischers segir að í framhaldinu verði skipaður skiptastjóri fyrir dánarbúið og allir þeir sem telja sig eiga kröfu í búið geti lýst kröfu í það. Jafnframt að þeir sem telja sig eiga rétt á arfi geta gefið sig fram.
Líkt og fram hefur komið á mbl.is hefur Jinky Young, 8 ára gömul stúlka sem sögð er vera dóttir Fischers, verið á landinu vegna erfðamála. Lögmaður hennar sagði í vikunni að krafa verði gerð í dánarbú skákmeistarans fyrir hönd Jinky. Tekin voru lífsýni úr stúlkunni í síðustu viku og er hugsanlegt, að krafa verði gerð um að líkamsleifar Fischers verði grafnar upp fyndist hvergi annars staðar nothæft lífsýni úr Fischer fyrir DNA-próf.
Systursynir Fischer kærðu úrskurð héraðsdóms um að hafna kröfu þeirra um að taka dánarbú Fishcer til opinberra skipta til Hæstaréttar. Taldi héraðsdómur að Fischer hafi verið í hjúskap með Watai og hún ætti því rétt á að fá búið framselt sér til einkaskipta.
Í dómi Hæstaréttar kom fram að lagt hafi verið fram skjal með yfirskriftina hjónavígsluvottorð á ensku og í íslenskri þýðingu. Á því segi að það sé byggt á staðfestu afriti opinberrar fjölskylduskrifstofu. Skorað hafi verið á Watai að leggja fram gögn sem hafi verið grundvöllur skráningarinnar. Hún hafi ekki orðið við því og ekki heldur skýrt með fullnægjandi hætti hvað standi því í vegi. Var því lagt til grundvallar í málinu að ekki hafi verið lögð fram fullnægjandi sönnun um að þau hafi gengið í hjónaband. Var krafa systursona Fischer um að taka búið til opinberra skipta tekin til greina.