Fréttaskýring: Engin lokadagsetning í Icesave-málinu

Við höfum ekki sett neinar dagsetningar niður í þeim efnum enda eru þær í sjálfu sér ekki til. Það liggur bara fyrir að hverju var stefnt og að það hefur ekki náðst,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra þegar hann var spurður hversu langan tíma Alþingi hefði til að ljúka afgreiðslu Icesave-málsins. Hann sagði stefnt að því að ljúka umræðunni fyrir jól.

Alþingi lauk í gær annarri umræðu um Icesave-frumvarpið. Málið fer nú aftur til fjárlaganefndar þar sem fjallað verður um þau 16 atriði sem stjórnarandstaðan hefur lagt áherslu á að farið verði yfir áður en frumvarpið kemur til endanlegrar afgreiðslu.

Miklar annir á Alþingi

Fundur verður haldinn í fjárlaganefnd í dag og segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, að þar verði farið yfir verklag í nefndinni. Hann segir að samkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu hafi falið í sér að nefndin fái þann tíma sem hún þarf til að fara yfir málið.

Miklar annir eru nú á Alþingi og fáir dagar eru eftir af þinghaldinu. Fjárlaganefnd hefur ekki lokið umfjöllun um fjárlagafrumvarp næsta árs. Auk þess er nefndin að fara yfir frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2009. Umfjöllun um fjárlagafrumvarpið er alltaf tímafrek, en vandinn við að koma saman fjárlögum hefur aldrei verið meiri. Alþingi á líka eftir að ræða skattabreytingartillögurnar, en þær eru bæði umfangsmiklar og umdeildar. Skattalagafrumvörpin eru nú til umræðu í efnahags- og skattanefnd.

Þrátt fyrir annir á Alþingi stefnir ríkisstjórnin að því að Icesave-frumvarpið verði að lögum fyrir jól.

Steingrímur var spurður hvort það hefði slæmar afleiðingar ef afgreiðsla frumvarpsins drægist ennfrekar en orðið er. „Við gerum allt sem við getum til að tryggja að það hafi það ekki og erum í samskiptum út af því,“ sagði Steingrímur og bætti við að stjórnvöldum í Hollandi og Bretlandi væri haldið upplýstum um stöðu málsins á Íslandi.

„Við verðum að hafa í huga að hér er verið að vísa máli til nefndar sem var þaulkannað í sumar og var í nefnd í nokkrar vikur fyrr í haust,“ sagði Steingrímur.

„Nefndin mun gera allt sem hún getur til þess að fara yfir þessi atriði og mæta þeim óskum sem uppi eru í þeim efnum, en það verður líka að vera innan einhverra hóflegra marka og ekki gert gagngert til þess að tefja málið.“

Ítarleg umræða

„Þetta mál er búið að fá gífurlega mikla yfirferð bæði inn í þinginu og í fjárlaganefnd. Það liggur fyrir listi af hálfu stjórnarandstöðunnar sem hún vill ræða inn í fjárlaganefnd, en mikið af því sem þar er óskað eftir að verði farið yfir liggur þegar fyrir, þannig að þetta ætti ekki að þurfa að taka langan tíma. Mitt mat er að þetta mál hafi fengið mjög ítarlega og góða yfirferð og ég á ekki von á að það sé neitt komið fram sem muni bæta það,“ sagði Jóhanna í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert