Jóhannes Jónsson í Bónus og Kristín dóttir hans áttu í dag fund með Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands. Þetta kemur fram á námsmannavefnum student.is. Sagði Jóhannes við vefinn að hann væri ánægður með fundinn en vildi ekki staðfesta að Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, hefði verið umræðuefnið.
Vísað er til þess að DV greindi frá því í nóvember að Jóhannes sakaði Hannes um að hafa dreift flugriti innan háskólans um Jón Ásgeirs Jóhannesson, son Jóhannesar, og fyrirtæki hans. Því vildi hann fá fund með rektor.
Student.is segir, að fundurinn í dag hafi staðið í tuttugu mínútur. Sögðust feðginin vera ánægð með fundinn en þau hefðu gengið á fund rektors með nokkur mál sem nú væru í ákveðnum farvegi.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, sagði við student.is að ýmis mál hefðu borið á góma á fundinum en að hún greindi almennt ekki frá erindum á slíkum einkafundum. Hún staðfesti þó að nokkur málanna þyrftu nánari athugunar við en hvorki neitaði né játaði því að þau væru Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni viðkomandi.