Námslánaskuldir felldar niður

Námslánaskuldir hafa verið felldar niður hjá nokkrum tugum manna í kjölfar þess að þeir fengu greiðsluaðlögun. Guðrún Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna, vill að þessi lán verði undanþegin slíkri niðurfellingu. Nokkur slík lán hafa þegar verið felld niður, ýmist að hluta eða öllu leyti. Greint er frá þessu á vef RÚV.

Greiðsluaðlögun býðst þeim sem ráða ekki við skuldir sínar. Úrræðið getur meðal annars falið í sér niðurfellingu skulda, að hluta eða í heild, sem ekki eru með veði í öðrum eignum.
 
Meðal þeirra skulda sem falla undir þessa greiðsluaðlögun eru námslán. Rúmlega tíu úrskurðir þeim tengdum hafa fallið og í meirihluta þeirra hafa lánin verið felld niður að öllu leyti eða stærstum hluta. Um fimmtíu slík mál bíða enn úrskurðar. Framkvæmdastjóri LÍN vill að námslán verði undanþegin þessu ferli. Afborgun þeirra miðist við tekjur fólks auk þess sem sjóðurinn bjóði sjálfur  upp á ýmis úrræði vegna greiðsluerfiðleika.

„Við teljum að þau úrræði ættu að koma til móts við þær aðstæður sem fólk býr við,“ segir Guðrún. „Það er okkar skoðun að þetta sé ferli sem ætti ekki að ná til námslánanna, þetta eru félagsleg lán, þetta eru ekki hefðbundin lán.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka