Að minnsta kosti níu lögreglumenn hafa gert eða munu gera kröfu um bætur vegna áverka sem þeir hlutu við löggæslu á meðan á mótmælum og óeirðum stóð í miðborg Reykjavíkur í fyrravetur.
Einn lögreglumaður hefur þegar fengið metna varanlega örorku en eftir á að meta endanlegt tjón þess sem hlaut hvað alvarlegustu áverkana.
Gylfi Thorlacius, lögmaður Landssambands lögreglumanna, er með mál níumenninganna en segir að vel geti verið að fleiri lögreglumenn krefjist bóta.
Eitt árásarmálið er komið til ríkissaksóknara en það snýst um innrás sem gerð var í Alþingishúsið en lögreglumanni á sjötugsaldri og þingvörðum tókst að hrinda henni við illan leik. Stutt er í að niðurstaða fáist í málið en ekki liggur fyrir hvort því lýkur með ákæru.
Sjá nánari umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.