Ögrandi próflokaskemmtun brýtur gegn lögum

Lögreglan á Suðurnesjum er með til gagngerrar skoðunar auglýsingu um það sem kallað er „Flottasta, sveittasta og kynþokkafyllsta partý fyrr og síðar!“. Um er að ræða próflokaskemmtun fyrir átján ára og eldri á Glóðinni í Keflavík þar sem „stelpur fá að bera olíu á drengina“ og seld verða „skot af berum kroppum“.

Dagskrá skemmtunarinnar sem auglýst er undir formerkjum próflokaskemmtunar og hefur m.a. verið beint að nemendum Fjölbrautarskóla Suðurnesja gengur gegn lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, að mati Skúla Jónssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglu Suðurnesja.

Í lögunum segir m.a.: „Á veitingastöðum er hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né með öðrum hætti að gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru.“

Dagskrá próflokaskemmtunarinnar samkvæmt auglýsingu er á þessa leið:

Dirty Dance Contest

Veljum SMIRNOFF stúlkuna - FLASKA Í VERÐLAUN

Sjóðandi heit undirfatasýning

Seljum skot af berum kroppum

Dansarar í búrum

Ljós blá mynd á breiðtjaldi

Stelpur fá að bera olíu á drengina

Fullnæging við hurð fyrir 50 fyrstu

Fyrsti dagskrárliðurinn er nánar útskýrður á þann veg, að þátttakendur fái þrjátíu sekúndur inni í dansbúri og engar reglur gilda. „Þú mátt nota aðra manneskju, þið megið vera 2 saman og allt. Sýndu hvað í þér býr,“ segir í auglýsingu.

Skúli segir að fjallað hafi verið um málið á fundi sérstaks samtakahóps, sem er þverfaglegur aðgerðahópur. Í honum eiga sæti fulltrúar lögreglu, forvarnasamtaka, grunnskóla og framhaldsskóla svo nokkrir séu nefndir.

„Eins og við sjáum þessa auglýsingu er engin heimild að halda skemmtun með þessum hætti, þá vísum til þess. Við munum kalla leyfishafann til fundar með lögreglustjóra,  forvarnarfulltrúa Reykjanesbæjar og sýslumanninum í Reykjanesbæ. Þar munum við lýsa þeirri skoðun okkar sem er bjargföst, að það er ekki leyfi fyrir skemmtun með þessum hætti, eins og hún er lögð fram,“ segir Skúli.

Skúli segir að auk þess muni lögregla sinna sínu lögbundna hlutverki og fylgjast með skemmtuninni sem fyrirhuguð er á laugardaginn næsta.

Auglýsingin á vef agent.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert