Samningahópar skipaðir

Samninganefndin Íslands í aðilarviðræðunum við Evrópusambandið.
Samninganefndin Íslands í aðilarviðræðunum við Evrópusambandið. mbl.is/Jón Pétur

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur skipað samningahópana tíu sem starfa munu með samninganefnd Íslands vegna fyrirhugaðra aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Í hópunum eiga sæti fulltrúar ráðuneyta og stofnana, hagsmunaaðila, félagasamtaka og háskólasamfélagsins.

Gert er ráð fyrir að hóparnir komi saman á næstu dögum og vikum. Fram hefur komið, að ekki sé nú reiknað með að ráðherraráð Evrópusambandsins fjalli um aðildarumsókn Íslands fyrr en á leiðtogafundi í mars á næsta ári. Reutersfréttastofan hafði í gær eftir sendimönnum í Brussel, að töf á staðfestingu nýrrar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hafi m.a. tafið umsóknarferli Íslands. 

Nýja framkvæmdastjórnin átti upphaflega að taka við 1. nóvember en því var frestað þar til Lissabon-sáttmálinn svonefndi tók gildi og Evrópusambandið útnefndi nýjan forseta ráðherraráðsins og utanríkismálastjóra. Ný framkvæmdastjórn tekur væntanlega við 1. febrúar en núverandi starfsstjórn getur ekki tekið lagalaga bindandi ákvarðanir. Ráðherraráðið getur hins vegar ekki tekið ákvörðun um hvort hefja eigi formlegar viðræður við Íslendinga fyrr en framkvæmdastjórnin hefur gefið út formlegt álit.   

Hlutverk íslensku samningahópanna er að annast undirbúning aðildarviðræðna við Evrópusambandið á einstökum samningsviðum en hóparnir verða samninganefnd og aðalsamningamanni til ráðgjafar. Í því felst einkum greining regluverks sambandsins af Íslands hálfu og síðar með framkvæmdastjórn ESB, undirbúningur tillagna um samningsafstöðu Íslands, og nánari mótun hennar eftir því sem viðræðunum vindur fram.

Hóparnir tíu fjalla um:
Byggða- og sveitarstjórnarmál
EES I, vörur, orka, samkeppnismál o.fl.
EES II, félagsmál, þjónusta, fjárfestingar, umhverfismál o.fl.
Fjárhagsmálefni
Dóms- og innanríkismál
Lagaleg málefni
Landbúnaðarmál
Myntbandalag
Sjávarútvegsmál
Utanríkisviðskipti, utanríkis- og öryggismál

Nánari upplýsingar um samningahópana, hlutverk þeirra og skipan, er að finna á Evrópuvef utanríkisráðuneytisins.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert