Umboðsmaður fjallar ekki um störf Alþingis

Róbert Spanó.
Róbert Spanó.

Umboðsmaður Alþingis segir, að það falli utan við starfssvið embættis hans að fjalla um störf Alþingis. Þetta kemur fram í bréfi, sem umboðsmaður hefur sent hópi manna, sem taldi að fjármálaráðherra hefði brotið gegn stjórnarskrá með því að taka þátt í atkvæðagreiðslu um Icesave-frumvarp í sumar eftir að hafa áður tekið þátt í meðferð málsins áður en það kom til kasta Alþingis.

Hópurinn, 26 einstaklingar, sendu umboðsmanni Alþingis kvörtun í nóvember og sögðust telja að Steingrímur J. Sigfússon hefði brotið gegn stjórnarskránni þegar hann sem fjármálaráðherra og handhafi framkvæmdavaldsins gerði samning fyrir Íslands hönd um ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunum og síðan sem alþingismaður og handhafi löggjafarvalds veit sömu samningum brautargengi á Alþingi með atkvæði sínu.

Róbert Spanó, umboðsmaður Alþingis, segir í bréfi til hópsins, að  í stjórnarskrá Íslands sé ótvírætt gert ráð fyrir að sami einstaklingur geti farið með hvort tveggja í senn framkvæmdarvald sem ráðherra og löggjafarvald, enda hefði hann hlotið kosningu sem þingmaður.

Þá segir Róbert að kvörtunin beinist í raun að löggjafarstörfum Steingríms. Það falli utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um störf Alþingis, þ.á m. þingstörf þeirra ráðherra, sem jafnframt séu kjörnir þingmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert