Alvarlegar athugasemdir eru gerðar við boðaðar skattabreytingar stjórnvalda, en fram kemur á vef Samtaka atvinnulífsins að vinnubrögð stjórnvalda séu harðlega gagnrýnd. Hagsmunaaðilar hafi aðeins fengið örfáa daga til að kynna sér efni frumvarpsins sem hafi að geyma mjög róttækar breytingar á íslenska skattkerfinu.
„Samtök atvinnulífsins ásamt Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu, hafa sent Alþingi ítarlega umsögn um fyrirhugaðar skattabreytingar ríkisstjórnarinnar þar sem gerðar eru fjölmargar alvarlegar athugasemdir og þau vinnubrögð sem viðhöfð eru gagnrýnd harðlega. Hagsmunaaðilar fengu aðeins örfáa daga til að kynna sér efni frumvarpsins sem hefur að geyma mjög róttækar breytingar á íslenska skattkerfinu,“ segir á vef SA.
Nánar á vef Samtaka atvinnulífsins.