Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu, að gjaldskrárhækkun Lyfjastofnunar í janúar árið 2008 hafi ekki verið í samræmi við lyfjalög.
Um var að ræða hækkun, sem heilbrigðisráðherra ákvað á gjaldskrá Lyfjastofnunar fyrir markaðsleyfi, árgjöld og önnur gjöld fyrir lyf og skyldar vörur, sem stofnunin innheimtir.
Í kvörtun til umboðsmanns var því einkum haldið fram að gjaldskráin hefði ekki byggt á þeim lögbundnu sjónarmiðum sem tilgreind væru í lyfjalögum um að gjaldskrá skuli taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna Lyfjastofnunar og vera byggð á rekstraráætlun.
Umboðsmaður segir, að að af skýringum heilbrigðisráðuneytisins og gögnum málsins megi draga þá ályktun, að ráðuneytið hefði fyrst og fremst reist ákvörðun sína um fjárhæð gjalda á að almennur rekstrarkostnaður stofnunarinnar hefði hækkað frá því að áðurgildandi gjaldskrá var gefin út og miðað þar við almennar vísitöluhækkanir. Því uppfyllti ákvörðunin ekki lagakröfur.
Umboðsmaður segir, að þar sem heilbrigðisráðherra hafi ekki sýnt fram á að nægilega traustir útreikningar hefðu verið lagðir til grundvallar þessum þjónustugjöldum væru ekki forsendur til að fullyrða hvort gjöldin hefðu verið ákvörðuð of hátt. Það yrði því að vera hlutverk dómstóla, að fjalla um hlut þeirra, sem hefðu þolað innheimtu gjalda á grundvelli gjaldskrárinnar. Umboðsmaður mæltist hins vegar til þess að gildandi gjaldskrá verði tekin til endurskoðunar.