Fréttaskýring: Hversu margar undirskriftir duga til?

Ljóst er að mörg þúsund Íslendingar vilja fá að segja …
Ljóst er að mörg þúsund Íslendingar vilja fá að segja skoðun sína á Icesave með þjóðaratkvæðagreiðslu en óvíst er hvort af því verður. Eggert Jóhannesson

Rúmlega 32 þúsund Íslendingar hafa nú skrifað undir áskorun til forseta Íslands um að synja staðfestingu Icesave-laga og efna þar með til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta eru tæp 10% íslensku þjóðarinnar, en ekki liggur þó fyrir hversu hátt hlutfall kjósenda er á listanum þar sem eftir á að keyra undirskriftirnar saman við þjóðskrá.

Þegar það verður gert mun væntanlega fækka eitthvað á listanum þar sem ekki er unnt að sannreyna skráðar kennitölur fyrr en eftir á.

Engin ákvæði eru um það í lögum eða í stjórnarskrá að ákveðinn lágmarksfjöldi kjósenda geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu, en ekkert sem mælir gegn því heldur.

15, 20 og 30% komið til tals

Báðir stjórnarflokkarnir lögðu hinsvegar áherslu á að slík ákvæði skyldu innleidd, eftir landsfundi sína fyrir kosningar í vor. Samfylkingin ályktaði m.a. að á stjórnlagaþingi skyldi skoða hvort minnihluti þingmanna, t.d. 30%, geti kallað eftir þjóðaratkvæði og að sama skapi tiltekinn hlutfallsfjöldi þjóðarinnar.

Vinstri græn nefndu í sínum kosningaáherslum 20% sem dæmi um þann fjölda sem þyrfti til að slík krafa gengi eftir. Fyrir kosningar í vor mælti Jóhanna Sigurðardóttir fyrir frumvarpi til stjórnskipunarlaga þar sem miðað er við að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram ef 15% kjósenda krefjist þess. Samkvæmt því þyrftu 34.184 kjósendur 18 ára og eldri að skrifa undir.

Þetta ákvæði er þó ekki lengur inni í núverandi frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þar segir að Alþingi geti ákveðið með þingsályktun að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram, en í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að tilefni þess að Alþingi taki slíka ákvörðun geti verið af margvíslegum toga. Þ.ám. ef sterk krafa kæmi fram um það í þjóðfélaginu og fjöldi kjósenda skrifaði undir kröfu um atkvæðagreiðslu. Ekki er hinsvegar skilgreint nánar hversu „sterk“ sú krafa þurfi að vera eða hve stór hluti i kjósenda.

Ástæða þess að ákvæðið um vilja 15% kjósenda er tekið út virðist vera að ekki er heimilt að leggja þær skyldur á Alþingi með lögum, að þjóðaratkvæðagreiðsla verði að fara fram við ákveðin tilefni. Til þess þurfi að breyta stjórnarskrá.

Stjórnarskráin geri nefnilega ekki ráð fyrir því að hendur löggjafans megi binda með þeim hætti. Að sama skapi segir í frumvarpinu að atkvæðagreiðsla sem boðað yrði til með þessum hætti geti aldrei orðið lagalega bindandi, aðeins ráðgefandi, að óbreyttri stjórnarskrá.

Í nýja frumvarpinu er raunar mælst til þess að þegar að því kemur að stjórnarskráin verði endurskoðuð verði þessi mál tekin til athugunar.

Þangað til er Alþingi og forseta Íslands í sjálfsvald sett hvort farið verði að kröfu Íslendinganna 32 þúsund um þjóðaratkvæðagreiðslu. Í ljósi stefnu stjórnarflokkanna fyrir síðustu kosningar mætti þó ætla að haldi undirskriftalistinn áfram að lengjast verði á það hlustað.

Undirskriftir

Undirskriftirnar gegn Icesave frumvarpinu náðu því í gær að verða fleiri en safnað var árið 2004 þegar Ólafur Ragnar Grímsson neitaði að samþykkja fjölmiðlafrumvarpið með þeim rökum að gjá hefði myndast milli þings og þjóðar.

Hann hafði þá tekið við undirskriftalista með kröfu 31.752 Íslendinga, en það voru þá 14,8% kjósenda m.v. kjörskrá til forsetakosninga sama ár.

Til samanburðar má nefna að árið 1993 skrifuðu rúmlega 35.000 Íslendingar nafn sitt á undirskriftalista um að EES-samningurinn færi fyrir þjóðaratkvæði. Það voru um 19% kjörgengra manna, m.v. kjörskrá 1991 og því töluvert fleiri hlutfallslega en 2004. Þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks í forsæti Davíðs Oddsonar, og Vigdís Finnbogadóttir forseti urðu ekki við þeirri kröfu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert